Sagan

Ágrip af sögu

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Skapti Örn Ólafsson - Undurfagra ævintýr 2019

 

í ár eru 145 ár síðan Eyjamenn komu fyrst saman í Herjólfsdal til þess að halda Þjóðhátíð. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er einstakt fyirbæri. Fyrst var haldin hátíð í Herjólfsdal árið 1874 til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, en þá fengu Íslendingar jafnframt afhenta sína fyrstu stjórnarskrá úr hendi Danakonungs. Um allt land voru haldnar þjóhátíðir, en það voru einungis Eyjamenn sem héldu fast í hefðina og héldu áfram hátíðarhöldum í Herjólfsdal næstu árin. Þannig varð grunnurinn til að þeirri hátíð sem við þekkjum svo vel í dag - Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Undir forystu Andreas August von Kohl, oft nefndur Kapteinn Kohl, var starfrækt herfylking í Vestmannaeyjum á árunum 1856-1869. Herfylkingin var kröftug í félagsstarfi Eyjaskeggja og hélt jafnan hvítasunnu- og sumarhátíðir í Herjólfsdal. Líklegt er að skemmtanir fylkingarinnar hafi orðið kveikjan að því að Þjóðhátíð var síðar valinn staður í Herjólfsdal.

Þjóðhátíð hefur verið haldin árlega frá árinu 1901, að styrjaldarárunum 1914 og '15 undanskildum. Árið 1911 héldu Eyjamenn Þjóðhátíð til að minnast hundarð ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar og var hátíðarsvæðið í Herjólfsdal sérstaklega vel skreytt blómsveigum og fánum á þessari hátíð. Kvenfélagið Líkn ásamt Knattspyrnufélagi Vestmannaeyja stó fyrir hátíðinni fyrstu árin.

Fyrsta Þórsþjóðhátíðin fór fram árið 1916 og þá þriðja áratug 20. aldar hófu Íþróttafélagið Þór og Knattspyrnufélagið Týr að halda hátíðina til skiptis - Þór á sléttri tölu og Týr á oddatölu. Félögin kepptust við að gera Þjóðhátíðina sem glæsilegasta og lögðu oft og tíðum mikið undir, enda félagsstarfið rekið fyrir ágóða Þjóðhátíðar næstu tvö árin á eftir. Þessi samkeppni á milli félaganna varð til þess að Þjóðhátíðin þróaðist í að verða ein allra glæsilegasta útihátíð landsins ár hvert. Týr og Þór voru lögð niður í árslok árið 1996 og félögin sameinuð undir merkjum ÍBV. Frá árinu 1997 hefur ÍBV staðið fyrir Þjóðhátíð í Herjólfsdal.

Hátíðin okkar í Herjólfsdal hefur vaxið og dafnað í áranna rás með sínum hefðum og venjum sem alla tíð hefur verið haldið fast í. Hér á eftir verður stiklað á stóru í þeim þáttum er snerta Þjóðhátíð.

 

 

Árið 1929 er fyrst getið um brennu á Fjósakletti. Mynd Gunnar Ingi Gíslason.

 

Dýrð næturinnar á Fjósakletti

Bálköstur á Fjósakletti er einn af hápunktum Þjóðhátíðar. Árið 1929 er fyrst getið um brennu á Fjóskakletti, en varðeldar í Herjólfsdal höfðu tíðkast á Þjóðhátíðum í smærri stíl frá árinu 1908. Í skemmtilegri grein frá árinu 1931 um Þjóðhátíð sagði Árni Guðmundsson: "Allir bæjarbúar, sem vettlingi geta valdið, hafa þyrpst inn í Dal til þess að gleyma um stund stritinu fyrir daglegu brauði. (...) Allir, eldri sem yngri, taka þátt í skemtuninni, hver á sinn hátt. Eldra fólkið hlýðir ræðum og söng - það gerum við ungu mennirnir líka. Við yngri mennirnir erum hrifnir af dýrð næturinnar, myrkrinu, ljósinu og lífinu - það eru gömlu mennirnir líka - sumir!"

Í dag er brennan á Fjósakletti mikið mannvirki; hátt í tíu metrar á hæð og inniheldur um þrjú þúsund vörubretti. Þá hefur tímaritið National Geographic sagt bálköstinn eina flottustu manngerðu brennu í heiminum. Síðustu áratugi hafa það verið vaskir peyjar úr handboltaliði ÍBV sem hafa haft veg og vanda af brennunni.

Frá árinu 1942 hefur brennukóngur kveikt í brennunni á Fjósakletti með tilþrifum. Sigurður Reimarsson, eða Siggi Reim eins og við Eyjamenn þekkjum hann, stóð vaktina í rúma hálfa öld eða til ársins 1996 er Finnbogi Gunnarsson tók við kyndlinum. 

 

 

Árið 1977 sameinaði Árni Johnsen þjóðhátíðargesti í fyrsta sinn í brekkusöng.

 

Lýsa upp dalinn í söng og gleði

Brekkusöngurinn er ómissandi hluti Þjóðhátíðar. Það var á fyrstu Þjóðhátíð eftir gos, árið 1977, sem Árni Johnsen sameinaði þjóðhátíðargesti í fyrsta sinn í brekkusöng.

Um langt árabil höfðu þjóðhátíðargestir sungið við gítar- og harmonikkuspil, en þarna var gestum í fyrsta sinn stýrt í samsöng í Herjólfsdal. Kórinn hefur stækkað ár frá ári og í dag er þetta einn af hápunktum Þjóðhátíðar. Ætla má að rúmlega hálf milljón manns hafi, þegar allt er talið saman, tekið þátt í brekkusöngnum. Eftir að íþróttafélögin Týr og Þór sameinuðust undir merkjum ÍBV var tekinn upp sá siður að tendra blys að afloknum brekkusöng á lokakvöldi Þjóðhátíðar. Eitt blys fyrir hvert ár sem Þjóhátíð hefur verið haldin.

Síðari ár hafa Eyjapeyjarnir Róbert Marshall, Jarl Sigurgeirsson, Sæþór Þorbjarnarson og Ingólfur Þórarinsson leitt þjóðhátíðargesti í brekkusöng ásamt Árna Johnsen.

Flugeldar hafa glatt unga sem aldna á Þjóðhátíð um árabil. Árið 1903 lýstu fyrstu flugeldarnir upp Herjólfsdal. Sá Gísli J. Johnsen um flugeldasýninguna fyrstu árin. Ási í Bæ lýsir stemmningunni ágætlega í ljóðinu Barnabrag.

Ljósin titra tjörninni á,

töfrablæ á dalinn slá,

segðu mér mamma eins og er

ætlarðu nú að lofa mér

að sjá bálið bjarta

brenna Kletti á

og flugeldanna fjöld

lýsa loftin blá.

Mörg undanfarin ár hefur Björgunarfélag Vestmannaeyja séð um framkvæmd flugeldasýningar af miklum myndarbrag.

 

 

Mynd fengin á heimaslod.is

 

Hrópað í trektina

Stefán Árnason, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, eða Stebbi pól, var kynnir á Þjóðhátíð í um 30 ár. Eldri Eyjamenn muna vel eftir Stebba Pól þar sem hann kynnti dagskrárliði í Herjólfsdal, en hann féll frá viku fyrir Þjóðhátíð 1977, þá háaldraður.

Í Barnabrag Ása í Bæ segir frá Stebba sem kallaði dagskrárliði og kynningar í trektina sína:

Eitt er bara andstyggilegt,

og af því erum mikið svekkt,

kjaftalætin í köllunum

sem krúnka á ræðupöllunum.

Og svo er hann Stebbi

sem æpir ofsa hátt

inn í trektina

ja ósköp á hann bágt.

Árni Johnsen tók við sem kynnir á Þjóðhátíð árið 1977 og kynnti dagskrárliði í liðlega þrjá áratugi er Bjarni Ólafur Guðmundsson tók við sem þjóðhátíðarkynnir árið 2006.

 

 

Mynd fengin á heimaslod.is

 

Gestrisni Eyjamanna

Eyjamenn flytjast búferlum yfir Þjóðhátíð þegar tjaldborg rís í Herjólfsdal. Kynslóðir mætast og eiga saman ógleymanlegar stundir við kaffispjall á daginn og söng og spil á kvöldin. Aðkomumenn á Þjóðhátíð eru aufúsugestir og hafa þegið veitingar í hvítu tjöldunum í áratugi hjá heimamönnum.

Fyrst sást hvítt hústjald á Þjóðhátíð árið 1908 og fjölgaði til muna á næstu árum þar á eftir. Hústjöldin hafa í rúm 100 ár verið í grunnin eins, en götur fyrir tjöldin í Herjólfsdal komu síðar til sögunnar.

Það var ætíð nokkur hamagangur á hóli þegar kom að því að velja sér stæði fyrir hvítu tjöldin. Allir gengu þó sáttir frá borði, enda markmiðið að gleðjast yfir Þjóðhátíðina. Í takt við nútímann hefur tölvutæknin nú tekið yfir við úthlutun á stæðum fyrir hvítu tjöldin, þannig að allir uni glaðir við sitt í Herjólfsdal yfir Þjóðhátíðina.

Göturnar hafa allar nöfn eins og Týsgata, Þórsgata, Ástarbraut, Veltusund, Skvísusund, Lundaholur, Sjómannasund og Sigurbraut.

 

 

Fyrsta bjargsigið á Þjóðhátíð var árið 1911. Mynd fengin á heimaslod.is

 

Sigið af snilld

Bjargsig úr Fiskhellanefi er ein af föstum hefðum Þjóðhátíðar og fylgjast gestir agndofa með aðförum sigmannsins er hann sveiflar sér niður bergið af mikilli list. Fyrst er getið um bjargsig á Þjóðhátíð árið 1911, en reglulega frá 1920.

 

 

Fyrst um sinn voru eingöngu seldir aðgöngumiðar á danspallinn og var hann þá afgirtur. Mynd fengin á heimaslod.is

 

Hljómkviða næturinnar

Tónlistin hefur alltaf skipað stóran sess á Þjóðhátíð. Söngur og gítarspil óma í hústjöldum og dans er stiginn á danspöllum á hátíðarsvæðinu.  Árið 1912 var fyrsti formlegi danspallurinn settur upp á Þjóðhátíð, en frá fyrri hluta 20. aldar hafa pallarnir verið tveir í Herjólfsdal. Fyrst um sinn voru eingöngu seldir aðgöngumiðar á danspallinn, en frá árinu 1969 hefur verið seldur aðgangur að hátíðarsvæðinu öllu í Herjólfsdal.

Dans á rósum, Lífsmark, Eymenn og Brimnes ásamt fleirum hafa farið fyrir listamönnum úr Eyjum á litla pallinum, en tjarnarsviðið hefur löngum verið helsta vígi hljómsveita Vestmannaeyja á Þjóðhátíð. Í gegnum tíðina hafa margar af vinsælustu hljómsveitum landsins komið fram á Þjóðhátíð og leikið fyrir dansi á stóra sviðinu. Það hefur jafnan verið talin mikil upphefð meðal tónlistarmanna að koma fram í Herjólfsdal, enda umhverfið og stemningin engu lík.

 

 

Frá Þjóðhátíð 1986. Mynd fengin á heimaslod.is

 

Þjóðhátíð stendur keik

Útihátíðir hafa verið haldnar um land allt í áratugi yfir verslunarmannahelgina en engin hátíð er eins rótgróin og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og fram yfir aldamót spruttu upp hátíðir um land allt eins og gorkúlur. Eyjamenn áttu í mikilli samkeppni við aðrar útihátíðir um hylli unga fólksins. Öll þessi áhlaup stóðst Þjóðhátíðin, enda stóðu Eyjamenn með sinni hátíð og án nokkurs vafa var það fyrst og fremst væntumþykja Eyjamanna og dugnaður sjálfboðaliðanna sem hafði þar mest um að segja.

 

 

Ævintýrið í Herjólfsdal er alltaf jafn bjart og fagurt. Mynd Gunnar Ingi Gíslason.

 

Ennþá fagnar sérhver sál

Frá því Eyjamenn komu fyrst saman til hátíðarhalda í Herjólfsdal sumarið 1874 hefur Þjóðhátíð Vestmannaeyja vaxið og dafnað. Hátíðin hefur farið í gegnum ýmis skeið í áranna rás og hafa hefðirnar orðið til ein af annarri. Ævintýrið í Herjólfsdal er hins vegar alltaf jafn bjart og fagurt og ennþá fagnar sérhver sál sælum endurfund á Þjóðhátíð. Þannig hefur það verið og þannig á það að vera.

 

 

 

 

Lengi vel var keppt í útiíþróttum á Þjóðhátíð. Mynd fengin á heimaslod.is

 

Íslandsmet slegin í Herjólfsdal

Íþróttir skipuðu um langt árabil stóran sess í dagskrá Þjóðhátíðar. Árið 1901 fór fram þjóðminningardagur í Herjólfsdal og höfðu hátíðarhöldin þróast á þá leið að kappróður var orðinn einn dagskrárliða. Eftir kappróðurinn, sem fram fór inni í Botni, var gengin skrúðganga inn í Herjólfsdal þar sem hátíðarsvæðið hafði verið skreytt. Þá fóru fram íþróttaviðburðir eins og glíma, kapphlaup og fleira. Síðar um kvöldið voru kaffiveitingar og sódavatn á boðstólum í tjöldunum, en áfengi stóð ekki til boða.

Lengi vel var keppt í útiíþróttum á Þjóðhátíð og öttu fremstu íþróttamenn þjóðarinnar kappi í stökkum og hlaupum í Herjólfsdal. Íslandsmet voru m.a. sett í stangarstökki og áttu Eyjamenn sína fulltrúa m.a. í Torfa Bryngeirssyni. Þegar fram liðu stundir eignuðust Eyjamenn fleiri framúrskarandi íþróttamenn sem settu Íslandsmet í köstum, stökkum og hlaupum. Má þar nefna Friðrik Jensson, Týrara sem keppti í stangarstökki á Þjóðhátíðinni árið 1923 þegar hann stökk yfir 2,82 metra. Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1931 sem hlaupabraut var lögð umhverfis tjörnina í Herjólfsdal.

 

 

Brennukóngurinn Sigurður Reimarsson. Mynd Sigurgeir Jónasson sigurgeir.is

 

Siggi Reim og olíutunnan

Árni Johnsen færði í letur skemmtilega sögu af Sigga Reim:

"Hinar efnismiklu og glæsilegu brennur Þjóðhátíðar Vestmannaeyja á Fjósakletti í Herjólfsdal byggjast á efni sem safnað er í bænum og allt það sem liggur á glámbekk á söfnunartíma yfir sumarið telst lögmætur brennumatur. Alla jafna gengur mjög vel að safna í brennuna en stundum hefur þurft að beita óhefðbundnari vinnubrögðum við olíuöflun á þjóðhátíðarbálið.

Einu sinni kom Magnús Magnússon netagerðarmeistari til Sigga Reim og spurði hann hvort það gæti verið að brennustrákarnir hefðu tekið og sett í olíubirgðirnar fyrir þjóðhátíðarbrennuna fjögur hundruð lítra olíutank sem geymdur var bakvið hús hans. Siggi taldi það af og frá: "Það getur bara ekki verið, enda læt ég aldrei stela í brennuna frá vinum mínum. Og þú, Maggi minn, ert einn af bestu vinum mínum."

- "Ég þóttist vita það, Siggi minn," svaraði Maggi. "Það var nú ekki sjálfur tankurinn og olían sem mér er annt um. Ég var með nýjan koparkrana á tanknum og sé verulega eftir honum."

- "Nú? Ertu að tala um hann, Maggi minn?" svaraði Siggi. "Það er allt í lagi með það, þú getur fengið kranann."

 

 

 

Samkeppni sem efldi hátíðina

Eins og áður segir skiptust Þór og Týr á um að halda Þjóðhátíð í áratugi. Oft var nokkur rígur á milli íþróttafélaganna, en ávallt á góðu nótunum. Mikil samkeppni var um hvort íþróttafélagið væri með flottari skreytingar og þá áttu félögin t.a.m. hvort sína brúna yfir tjörnina í Herjólfsdal, en á árunum 1954-1960 var frysta brúin byggð.

Einhverju sinni var haft á orði um ríginn: "Þórarar fullyrtu að Guð væri í Þór, enda væri alltaf gott veður þegar þeir héldu hátíðina. Týrarar fullyrtu aftur á móti að það væru alltaf fleiri gestir á þeirra Þjóðhátíð og mun meira fjör í Herjólfsdal."

Þessi mikla samkeppni á milli Þórs og Týs hefur vafalaust eflt Þjóðhátíðina og gert hana að því sem hún er í dag.

 

Frá Þjóðhátíð á Breiðabakka. Mynd fengin á heimaslod.is

 

Þjóðhátíð á Breiðabakka

Þrátt fyrir böl og alheimsstríð verður haldin Þjóðhátið. Eldgos hófst á Heimaey 23. janúar árið 1973 og lauk 3. júlí sama ár. Eftir Heimaeyjargosið var mikill vikur og gjall í Herjólfsdal og því var Þjóðhátíðin færð suður á Breiðabakka í Vestmannaeyjum. Hátíðin sem fram fór árið 1973 stóð aðeins yfir í einn dag og var haldin fyrir starfsmenn sem unnu við að hreinsa Vestmannaeyjabæ.

Árið 1976 var Herjólfsdalur hreinsaður af vikri og tyrfður af sjálfboðaliðum. Fyrsta Þjóðhátíð í Herjólfsdal eftir gos fór síðan fram árið 1977 þegar Týrarar stóðu fyrir hátíðinni.

 

 

Lúðrasveit Vestmannaeyja hefur spilað á Þjóðhátíð allt frá stofnun sveitarinnar 1939. Mynd Gunnar Ingi Gíslason

 

Skært lúðrar hljóma

Lúðrasveit Vestmannaeyja, sem kemur jafnan fram við setningu Þjóðhátíðar ásamt kirkjukór Landakirkju, tengist Þjóðhátíð sterkum böndum. Rétt eftir aldamótin þarsíðustu vaknaði mikill áhugi á tónlist í Vestmannaeyjum og komu nokkrir ungir menn saman með þá hugmynd að stofna lúðrasveit í Eyjum. Gekk ekki allt áfallalaust í fyrstu þar sem hljóðfæri, sem pöntuð voru að utan, strönduðu með skipi rétt við Færeyjar. Voru þá keypt önnur hljóðfæri en seld fljótlega þegar hin fyrrnefndu komu til Eyja. Naut þessi fyrsta lúðrasveit mikilla vinsælda og spilaði á flesstum útisamkomum, svo sem á Þjóðhátíð og við önnur hátíðleg tækifæri.

Lúðrasveit Vestmannaeyja hefur starfað óslitið frá árinu 1939 er Oddgeir Kristjánsson gerðist stjórnandi hennar. Það kom síðan í hlut lúðrasveitarinnar að frumflytja þjóðhátíðarlög stjórnanda síns við setningu Þjóðhátíðar. Enn í dag leikur Lúðrasveit Vestmannaeyja jafnan útsetningar af nýjustu þjóðhátíðarlögunum við setningu Þjóðhátíðar.

 

 

Hofið er glæsilegt mannvirki sem hefur sett svip á hátíðarsvæðið í áratugi. Mynd Brynjúlfur Jónatansson, fengin á heimaslod.is

 

Stórborgarbragur í Herjólfsdal

Glæsilegustu mannvirki í Vestmannaeyjum rísa í aðdraganda Þjóðhátíðar og standa í Herjólfsdal, þjóðhátíðargestum til mikillar gleði yfir hátíðina. Hafa vitinn, myllan, hofið og brúin yfir tjörnina í áratugi sett svip á hátíðarsvæðið í Herjólfsdal. Á fimmtudagskvöldi í aðdraganda Þjóðhátíðar eru þessi merkilegu mannvirki vígð við hátíðlegar athafnir í Herjólfsdal þar sem sjálfboðaliðar og velunnarar eiga saman skemmtilega stund.

 

 

Bekkjabíll, saga þeirra er hátt í 100 ára gömul. Mynd fengin á heimaslod.is

 

Ævintýralegir fararskjótar

Bekkjarbílarnir tengjast Þjóðhátíð órjúfanlegum böndum. Saga þeirra er hátt í 100 ára gömul. Um tíma voru bekkjarbílarnir nokkrir tugir talsins, en þeim fækkaði mikið með árunum. Öryggissjónarmið og strangar reglur gerðu það að verkum að síðustu bekkjarbílarnir keyrðu um á Þjóðhátíð árið 2014. Þeir sem eldri eru muna vel eftir ævintýrinu sem það var að setjast upp í bekkjarbíl og taka stefnuna í dalinn eða heim á leið eftir vel heppnaða stund í Herjólfsdal.

 

 

Margir vinahópar klæða sig upp í búningum. Mynd Gunnar Ingi Gíslason

 

Uppábúin í dalnum

Glaðlegir og litríkir búningar hafa síðustu áratugi sett skemmtilegan svip á þjóðhátíðarhaldið. Fyrstu búningarnir á Þjóðhátíð fóru að sjást í Herjólfsdal um miðjan áttunda áratuginn. Margir vinahópar hafa haldið fast í hefðina og verið í búningum sem verða bara flottari með árunum.

 

 

Sjálfboðaliðarnir eru límið í Þjóðhátíðinni.

 

Óeigingjarnt starf sjálfboðaliða

Óhætt er að segja að límið í Þjóðhátíðinni séu allir þeir sjálfboðaliðar sem lagt hafa hönd á plóg við að gera hátíðina að því sem hún er. Þeir eiga mikið hrós skilið fyrir sitt óeigingjarna starf í áranna rás við öll þau stóru og smáu atriði sem á endanum skipta mestu máli. Án alls þessa fólks færi Þjóhátíð vart fram.

 

 

 

Oddgeir Kristjánsson samdi fyrstu Þjóðhátíðarlögin. Mynd fengin á heimaslod.is

 

Feður þjóðhátíðarlaganna

Fyrsta þjóðhátíðarlagið var samið 1933 þegar Oddgeir Kristjánsson setti saman lagið Setjumst að sumbli við texta Árna úr Eyjum. Þó eru til heimildir um að þrjú kvæði hafi verið frumsamin fyrir Þjóðhátíð árið 1905 og sungin á milli ræðuhalda af æfðum söngflokk. Á þeim áttatíu og sex árum sem liðin eru frá því fyrsta þjóðhátíðarlagið var flutt í Herjólfsdal eru lögin orðin sjötíu og sjö talsins.

Segja má að frumherjar þjóðhátíðarlaganna séu fjórir. Á engan er hallað er Oddgeir Kristjánsson er fyrstur nefndur á nafn, en hann vann með þeim Árna úr Eyjum, Ása í Bæ og Lofti Guðmundssyni að mörgum þjóðhátíðarlögum.

Þeir Árni úr Eyjum og Oddgeir bundust snemma vináttuböndum og eru frumkvöðlar að gerð þjóðhátíðarlaga. Árni gerði til að mynda texta við tíu lög Oddgeirs. Mörg af fallegustu lögum Eyjanna hafa orðið til á nótnaborði Oddgeirs og nægir þar að nefna perlur eins og Ég veit þú kemur. Þá má ekki gleyma Ástgeiri Kristni Ólafssyni, betur þekktum sem Ási í Bæ, en samstarf þeirra varð gjöfult og sköpuðu þeir margar perlur sem í dag eru landsþekktar, t.d. Sólbrúnir vangar. Loftur Guðmundsson er sá fjórði, en Eyjamenn minnast Lofts kannski helst fyrir ljóð hans við lög Oddgeirs. Hann samdi meðal annars textann við þjóðhátíðarlagið árið 1968, Svo björt og skær, og textann við Ship ohoj.