Tveir hópar manna í Vestmannaeyjum telja að á þjóðhátíð séu tvö mannvirki sem beri af öðrum í Herjólfsdal. Er þar verið að tala um Mylluna víðfrægu og Vitann stórglæsilega. Mikill metnaður hefur verið lagður í smíði þessara mannvirkja í gegnum árin og er óhætt að segja að menn leggi mikið á sig við að gera Mylluna og Vitann sem flottastan, og helst flottari en árið áður.
Eins og eyjamönnum er von og vísa er mikill samhugur og samvinna sem einkenna þjóðhátíðina ásamt þeirri einstöku eyjastemningu sem myndast í eldgígnum gamla um verslunarmannahelgi ár hvert. Þessi samtakamáttur hefur gert þjóðhátíðina að glæsilegustu útihátíð á Íslandi og þó víðar væri leitað. Menn hjálpast að við að koma mannvirkjum fyrir í dalnum, hlaða þarf brennuna á Fjósakletti og ætíð eru menn tilbúnir að leggja hönd á plóg við innrukkun og það sem tilfellur í þjóðhátíðarhaldinu. Eru sumir svo heitir þjóðhátíðarunnendur að einungis þarf að flagga ÍBV fánanum og þá eru þeir komnir til að hjálpa. En það er önnur saga.
Víkur þá sögunni aftur að Vitamönnum og Myllugengi. Á milli þessara tveggja hópa hefur ekki verið að finna samheldnina og ástúðina sem einkennir hátíðina í Herjólfsdal. Menn hafa beytt öllum brögðum við að upphefja sitt mannvirki og hefur oft og tíðum mikið gengið á. Eitt árið komu Vitamenn, sem Myllumenn kalla reyndar hálf-vita, reykvél fyrir í Myllunni og settu af stað þegar Myllan var formlega vígð á fimmtudegi fyrir þjóðhátíð. Upphófst mikið panikk hjá Myllumönnum sem voru á barmi taugaáfalls. Tókst með naumindum að stöðva útkall hjá slökkviliðinu. Þá hefur Myllugengið strítt kollegum sínum í gegnum tíðina með ýmsum uppákomum eins og blaðaútgáfu í léttum dúr og stórglæsilegum flugeldasýningum sem gert hafa sýningu Vitamanna á flugeldum að hálfgerðum brandara. Að sjálfsögðu er þessi rígur á milli fylkinganna í léttum gír og í eyjamanna stíl.
Þegar þetta er skrifað hafa Vitamenn komið Vitanum fyrir á sínum venjulega stað við hliðið, á hægri hönd þegar komið er inn í Herjólfsdal. Hins vegar hökktir eitthvað í gangverki Myllugengisins í ár því Myllan er ekki svipur hjá sjón og er hálfuppsett við hringtorgið í dalnum. Heyrst hefur að Myllustjórinn sjálfur, Jóhann Pétursson, sem jafnframt er formaður ÍBV-íþróttafélags, sitji þessa dagana sveittur við samningu setningarræðu þjóðhátíðarinnar, og hefur Myllan, sem löngum hefur verið talin með glæsilegustu mannvirkjum í Norðurálfu, setið á hakanum á kostnað ræðunnar. Bíða menn eftir einhverri stórkostlegustu setningarræðu fyrr og síðar um þrjúleytið á föstudaginn kemur. Á sama tíma hafa Vitamenn komið Vitanum upp á mettíma með dyggri aðstoð nýrrar kynslóðar sem kallar sig Vitinn group. Vilja menn meina að Vitinn hafi sjaldan verið glæsilegri. Hann einfaldlega skyggi á annað sem fyrir augum ber í dalnum.
Það er af sem áður var, þegar Myllan var stolt þjóðhátíðargesta og fékk mörg ástfangin pör til að festa ráð sitt undir taktföstum spöðum Myllunnar sem snérust í takt við hjörtu þeirra. Eins og staðan er núna er það Vitinn sem mun laða til sín gesti hátíðarinnar í ár. Mun hann án efa leiða villuráfandi unglinga og dansþreytt gamalmenni inn á rétta vegu lífsins ásamt því að vísa þjóðhátíðargestum rétta leið inn í Herjólfsdal.
Það verður hins vegar gaman að fylgjast með Myllumönnum á lokasprettinum. Tekst þeim að koma Myllunni aftur á fyrri stall frægðar og glæsileika? Mun Myllustjórinn klára setningarræðuna og einbeita sér að Myllunni á lokasprettinum? Tekst honum að komast hjá því að minnast á Mylluna í ræðunni? Hvað gera Vitamenn? Horfa þeir sigurvissir og afslappaðir fram á þjóðhátíð þar sem Vitinn mun bera af í glæsileika?