Einn af hápunktum Þjóðhátíðarinnar er brennan sem er föstudagskvöldið kl 0:00. Þá hleypur brennukóngur upp brekkuna með bálköst og tendrar brennuna. Brennan er í ár 55 brettahæðir, eingöngu bretti heilt í gegn. Um 8m að hæð gnæfir brennan yfir Herjólfsdal í allri sinni fegurð. Þetta mun vera töluvert á undan áætlun og núna er einungis beðið eftir spírum frá norðurey til að styðja við brettin.
Fyrir þá sem eru áhugasamir þá má til gamans geta að á þriðjudag verður hún vírbundin svo hún hrynji ekki eftir skamman tíma auk þess sem hún er olíuborin á föstudeginum til að bleyta vel fyrir brunann. Um kvöldið er síðan bleytt neðst í brennunni með bensíni til að auðvelda íkveikju auk þess sem svokallaðir "skvettarar" notast við olíu þegar eldurinn er kominn að og bálið lýsir upp dalinn. Það er Mfl ÍBV karla í handbolta ásamt góðum gestum sem hafa veg og vanda að brennunni. Davíð Þór Óskarsson, einn af brennupeyjunum, segir að þetta sé ein sú fallegasta brenna sem hefur verið stöfluð en menn geta fljótlega séð myndir af undirbúningnum úr dalnum.