Nýtt merki Þjóðhátíðar kynnt

Ein allra stærsta og elsta hátíð landsins, Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, hefur nú formlega öðlast opinbert merki (e. Logo). Þar sem að téð Þjóðhátíð hefur séð landanum fyrir einstakri upplifun síðan 1874 má glöggt sjá að þetta markar straumhvörf í 137 ára glæstri sögu hátíðarinnar, og í raun Íslands sjálfs.
Þessu ber auðvitað að fagna.
 
Markmið merkisins var að standa fyrir og endurspegla Þjóðhátíð á einfaldan og stílhreinan hátt um ókomna tíð. Á sama tíma er merkið samsett úr nokkrum mismunandi eigindum sem vísa öll í hátíðina, Vestmannaeyjar, og farsæla hefðina.
Lundinn í merkinu er augljós og sterk táknmynd Vestmannaeyja, en þessi tiltekni lundi hefur mun víðfeðmari vísanir. Hann ber kórónu, með vísun í að Þjóðhátíð sé konungur útihátíðanna, og gestir því þátttakendur í einhverju upphöfnu, einstöku. Kórónan er svo samsett úr eldi og flugeldum, sem er að sjálfsögðu sterk skírskotun í Brennuna og Flugeldasýninguna, tvo af sterkustu sjónrænu þáttum Þjóðhátíðar.
Hinn græni litur merkisins vísar svo beint til Vestmannaeyja, sbr. hinn forna sið að vísa til Eyjunnar sem „Eyjan mín græna.“
Merkið var hannað af Heiðari Þór Jónssyni, grafískum hönnuði hjá Vert markaðsstofu.

 
Deila á facebook