ÍBV hefur nú um nokkurt skeið unnið að ýmsu forvarnarstarfi. Þar má nefna Íþróttaakademíuna og ÍBV gegn einelti.
Nú hefur þetta verið tekið skrefinu lengra. Þann 28. júní síðast liðinn ákváðu grasrótarhreyfing í Vestmannaeyjum og Þjóðhátíðarnefnd ÍBV að stofna forvarnarhóp ÍBV. Hópurinn hefur fengið það hlutverk að standa fyrir sérstöku átaksverkefni gegn kynferðisofbeldi og verður það verkefni áberandi á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum nú í byrjun ágúst.
Það er einróma mat forvarnarhóps ÍBV að mikilvægt sé að efla forvarnir á þessu sviði enda sé það forgangsverkefni að koma í veg fyrir að ofbeldið eigi sér yfrleitt stað. Markmið hópsins er því fyrst og fremst að vekja athygli á málefninu á sýnilegan hátt því málefnið snerti alla gesti hátíðarinnar. Kynferðisofbeldi er ekki liður í dagskrá Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum og verður ekki liðið.
Við notum oft setninguna „að bleikur fíll sé í stofunni“ um stór vandamál sem virðast ekki vera hægt að leysa og oft er því reynt að horfa framhjá þeim.
Við neitum að taka þátt í því.
Það er bleikur fíll í stofunni.
Hann heitir nauðgun.
Við ætlum að moka honum út.
Við viljum með þessu opna umræðuna, nauðgun er ofbeldisglæpur sem hefur grafalvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fórnarlambið og ekkert réttlætir slíkt. Til að rjúfa þessa samfélagslegu þöggun viljum við fá karlmenn til að tala við aðra karlmenn um "bleika fílinn".
Ef samþykkið vantar, er það nauðgun.
Ef það hefur ekki heyrst skýrt já, þá er það nauðgun.
Vill nokkur vera nauðgari?
Vill nokkur vera bleikur fíll?