Sálin hans Jóns míns, sem fagnaði 25 ára afmæli sínu í troðfullri Vodafonehöll um síðustu helgi, spilar á Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina. Einn vinsælasti tónlistarmaður landsins, Ásgeir Trausti, hefur einnig verið bókaður á hátíðina.
Þessir tveir flytjendur bætast í hóp Stuðmanna og Retro Stefson sem einnig stíga á svið í Eyjum og því ljóst að gestir hátíðarinnar munu fá sitthvað fyrir sinn snúð. Stuðmenn mæta til leiks með sömu tónleika og þeir fluttu í október í fyrra undir yfirskriftinni Með allt á hreinu.
Forsala miða á Þjóðhátíð er hafin á Dalurinn.is og er miðaverð 16.900 krónur. Fólk getur dreift greiðslunum vaxtalaust á fjóra mánuði. Fullt verð við hliðið í Eyjum er 18.900 kr. Salan í Herjólf fyrir Þjóðhátíð er einnig hafin.