Björn Jörundur Friðbjörnsson úr hljómsveitinni Nýdönsk hefur samið Þjóðhátíðarlagið í ár.
„Ég var beðinn um að semja lag fyrir Þjóðhátíðarnefnd. Ég er búinn að því og tók þetta upp með félögum mínum í hljómsveitinni,“ segir Björn Jörundur. Aðspurður segir hann þetta vera alveg ekta fínt Þjóðhátíðarlag. „Ég vandaði mig sem mest ég mátti og ég veit að það tókst vel.“ Lagið, sem hefur ekki fengið nafn, verður flutt af Birni Jörundi á föstudagskvöldinu á Þjóðhátíðinni í Vestmannaeyjum. Honum til aðstoðar verður hljómsveit sem spilar einnig það kvöld. „Ég á eftir að sjá hverjir geta spilað lagið með mér. Kannski Stuðmenn.“
Spurður hvort hann hafi þurft að setja sig í sérstakar stellingar við lagasmíðina segir hann: „Mér fannst svolítið erfitt að semja texta fyrir svona tilefni. Ég var alveg í þrjá mánuði með hann í smíðum,“ segir hann en lagið sjálft var heldur styttra í fæðingu: „Það var bara samið á fimm mínútum. Góð lög eru bara samin á fimm mínútum.“
Fréttin birtist á visir.is