„Ég er búinn að semja textann en ég er enn að vinna í titlinum. Vinnuheitið er Ljúft að vera til,“ segir tónlistarmaðurinn Jón Jónsson. Hann semur þjóðhátíðarlagið í ár sem verður flutt á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.
„Ég hef oft farið á Þjóðhátíð – sex sinnum sem gestur og tvisvar spilað þar. Það er alltaf snilld þannig að þegar ég fékk símtal á haustdögum fannst mér þetta ekki spurning. Ég þurfti ekki einu sinni að sofa á ákvörðuninni. Ég sagði bara: Let‘s go,“ segir Jón sem neitar því ekki að þessu starfi fylgi dálítið álag.
„Þetta er ákveðin pressa. Bæði þarf fólk í Eyjum að samþykkja lagið og gestirnir þurfa að fíla það.“
Hann segir lagið vera lauflétt og sumarlegt.
„Þetta er Jón Jónsson í Eyjabúningi. Ég er hvorki að finna upp hjólið í laglínu eða textagerð. Þetta á bara að vera gleði og sumar,“ segir Jón. En hvert er hans uppáhaldsþjóðhátíðarlag?
„Mér finnst Lífið er yndislegt alltaf yndislegt. En alltaf þegar ég hugsa um Eyjar hugsa ég um lagið Vináttu sem Hreimur Örn Heimisson söng líka. Við félagarnir reyndar sömdum líka texta um vin okkar við lagið Í Vestmannaeyjum. Hann dó í brekkunni og var færður í dauðagáminn. Við breyttum textanum í: Vakna upp í Vestmannaeyjum, í dauðagámi Samskipa. Það mátti ekki segja neinum, það mátti enginn vita það. Ég nefni þennan vin minn ekki á nafn en hann veit hver hann er,“ segir Jón.
http://www.visir.is/jon-jonsson-semur-thjodhatidarlagid/article/2014704299991