Fólkið Í Dalnum á RÚV í kvöld

Í kvöld er hægt að horfa á heimildarmyndina Fólkið í dalnum á RÚV, myndin hefst 19:45.

 

Í kringum Þjóðhátíðina árið 2013 kviknaði hugmynd að gerð heimildarmyndarinnar hjá þeim Sighvati og Skapta Erni. Að þeirra mati var og er löngu kominn tími til að skrásetja þessa mögnuðu sögu í formi heimildarmyndar. Árið 2014 hófumst þeir félagar handa þegar liðin voru 140 ár frá því fyrst var haldin Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Upphaflega var ætlunin að gera einni hátíð skil í stuttri heimildarmynd. Fljótlega kom í ljós að það væri ekki raunhæft fyrir eitt tökulið að fanga viðburðinn með upptökum á einni hátíð. Undanfarin fimm ár hafa þeir Sighvatur og Skapti Örn þannig unnið að gerð heimildarmyndar um Þjóðhátíð.

 

Afraksturinn er mjög mikið af efni frá síðustu fimm hátíðum. Tekin hafa verið á annað hundrað viðtöl við fólk sem tengist hátíðinni með einum eða öðrum hætti og ætla má að annað myndefni telji nokkra tugi klukkutíma.

Saga Þjóðhátíðar í nútíð og fortíð
Hugmyndin er að segja sögu Þjóðhátíðar í gegnum upptökur síðustu ára. Fylgst hefur verið með tveimur fjölskyldum við hátíðahaldið, allt frá undirbúningi að frágangi. Fjallað verður um hefðirnar, tónlistina, lífið í hústjöldunum, sjálfboðaliðana og öryggismálin. Eyjamenn gera sér grein fyrir hversu mikið verk er að halda Þjóðhátíð sem er stærsta fjáröflun ÍBV íþróttafélags.

Tilgangurinn með útgáfu myndarinnar er að miðla sögu Þjóðhátíðar í nútíð og fortíð til stærri hóps en áður, innan lands sem utan. Hátíðin er elsta útihátíð landsins en sú fyrsta fór fram í Herjólfsdal 1874. Á alheimsvísu er fjölskyldu- og tónlistarhátíðin í Eyjum byggð á sterkari grunni en margar aðrar viðlíka skemmtanir.

Undanfarin ár hefur mikil umræða verið hér á landi um öryggisþátt Þjóðhátíðar og annarra útihátíða. Í myndinni verður fjallað sérstaklega um hversu mikil áhersla er lögð á gæslu og öryggi hátíðargesta. Þjóðhátíðarnefnd ÍBV vinnur að hátíðinni árið um kring og er mikill metnaður lagður í dagskrá og alla umgjörð.

„Þjóðhátíð í Eyjum hefur vaxið undanfarin ár og hefur skapast umræða meðal Eyjamanna um þolmörk hátíðarinnar. Með tilkomu Landeyjahafnar hefur flutningsgeta stóraukist. Í myndinni er fjallað um þróun hátíðarinnar og ljósi varpað á hversu miklu máli hún skiptir fyrir verslun og þjónustu í Eyjum,“ segir Sighvatur.

 

Eyjafrettir.is Greindi Frá

Deila á facebook