Hreimur með Þjóðhátíðarlagið 2021

Miðasala hefst miðvikudaginn 26. maí kl. 09:00.

 

Höfundur og flytjandi Þjóðhátíðarlags Vestmannaeyja árið 2021 er Hreimur Örn Heimisson. Lagið ber heitið "Göngum í takt" og fjallar um eftirvæntinguna sem að kraumar inn í manni þegar að maður er að labba niður í dal, gegnum hliðið og heyrir í drununum úr brekkunni þegar þúsundir fólks hafa þjappað sér saman og hátíðin er byrjuð.

 

Hreimur fékk Vigni Snæ Vigfússon með sér í að pródúsera lagið. Magni, sem söng með Hreim árið 2001 í Þjóðhátíðarlaginu Lífið er yndislegt, verður einnig með að þessu sinni ásamt Emblu Margréti 16 ára dóttur Hreims sem syngur einnig í laginu.

 

Fleiri koma að laginu. Benedikt Brynleifsson spilar á trommur, Matthías Stefánsson spilar á fiðlu, Pálmi Sigurhjartarson spilar á harmonikku og Árni Þór Guðjónsson, Steini Bjarka, Benedikt Brynleifs og Vignir Snær mynda kórinn.

 

Lagið kemur inn á Spotify og verður frumflutt á útvarpsstöðvum landsins föstudaginn 28. maí en miðasala á Þjóðhátíð í Eyjum hefst miðvikudaginn 26. maí á dalurinn.is

 

Hér fyrir neðan má lesa yfir texta lagsins fyrir þá sem vilja byrja að leggja það á minnið fyrir hátíðina:

 

Allir í bátana yfir á eyjuna förum í ferðalag

Ég vona að ég hitti þig, hátt upp í brekkunni

Við sitjum hlið við hlið

 

Þegar eldar lýsa upp ský

Við erum komin saman á ný

Og þessi hátíð byrjar upp á nýtt

 

Við förum inn í dal, við hittum ykkur þar

Syngjum saman öll, göngum í takt og búum til minningar

Við förum inn í dal, við hittum ykkur þar

Syngjum saman öll, gönum í takt og búum til minningar

 

Við sitjum á sama stað, horfum á brennuna, fuðra upp í nóttina

Svo syngjum við söngvana, kannski missum við röddina

En öllum er sama um það

 

Og þegar eldar lýsa upp ský

Við erum komin saman á ný

Þessi hátið byrjar upp á nýtt

 

Við förum inn í dal, við hittum ykkur þar

Syngjum saman öll, göngum í takt og búum okkur til minningar

Við förum inn í dal, við hittum ykkur þar

Syngjum saman öll, göngum í takt og búum okkur til minningar

 

Við komum alltaf aftur, Herjólfsdalur heilsar okkur

Við tökum höndum saman

Við erum Þjóðhátíð!!!

Deila á facebook